Irisflotta.com

mánudagur, mars 31, 2003

Aldeilis kraftur í Maríubaugshjónunum í gær. Íbúðin og sameignin tekin hátt og lágt. Það má samt ekki gera of miklar kröfur því enn er ýmislegt eftir eins og að kaupa gardínur og taka til í geymslunni sem verður svona eilífðarverkefni.

DaðiSpaði kíkti í Chickfajitas og það var aldeilis góður matur og skemmtilegt spjall. Datt svo í myndastuð og raðaði restinni af gömlum myndum í albúm. Tók svona sjónvarpslaust kvöld.

Leiknum gegn ÍR var frestað vegna stórhríðar. Alveg dæmigert þar sem sólin er nú farin að skína í dag. Svona er þetta, maður veit bara aldrei.

Hrós dagsins: Maríubaugshjónin fyrir endemis dugnað.

sunnudagur, mars 30, 2003

Góður vinur minn sagði að veikindi væri engin afsökun fyrir bloggleysi. Það eru víst einhver sannindi í því. Er enn hálf aumingjaleg en skrapp í Kringluna í gær með Döggu systir og krökkunum. Sendum þau í dótabúðina meðan við mátuðum í búðunum. Alltaf kaupum við eitthvað þegar við erum saman.

Við hjónakornin fórum svo á Ask í gær. Þetta er orðinn svona siður að kíkja út að borða á laugardagskvöldum. Fórum svo til Hildar og Bogga og spjölluðum frá okkur allt vit í miklum notalegheitum.

Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir gengnir í KR. Það er aldeilis. Það verður gaman fyrir minn mann að spila með þessum snillingum. Þeir eiga eftir að ná vel saman. Áfram KR í mfl. karla.

Hrós helgarinnar: SiggiRaggi fyrir að fara í bakaríið í morgun og koma með rjúkandi rúnstykki og gulrótarköku.

föstudagur, mars 28, 2003

Er lasin heima og missti því af æfingu í gær. Frétti að vel hafi verið tekið á því á æfingunni. Er búin að liggja í sófanum og lesa svo spennandi bók að ég dreymdi hana í alla nótt. Hún heitir Á fjalli lífs og dauða og þar segir klifrari og blaðamaður frá reynslu sinni þegar hann klifraði á toppinn 1996 og 5 úr hópnum hans dóu. Mæli með henni fyrir alla bókaorma.

Var verið að bjóða mér að skrifa um íslenskan fótbolta fyrir UEFA.com. Ég afþakkaði pent. Víst nóg að gera þessa dagana. Það hefði samt verið gaman. Gæti verið að ég tæki að mér að kynninngu á kvennaknattspyrnu í skólum í haust. Það gæti orðið massagaman.

Hrós dagsins: Birna vinkona fyrir frábært, furðulegt og fyndið sms, þar sem lífinu var lýst í færri orðum en ég hef áður séð.

þriðjudagur, mars 25, 2003

Hey, hafiði tekið eftir því að Femínistafélagið er með sama blogglúkk og ég, Ónó.

Bjóðum Hlín, Thelmuflottu2, Daðaflotta og réttaBjörk velkomin í linkasafnið.

Ég hafði alltaf sigur á tilfinningunni. Jafnvel þegar Þraukarar lentu 2:0 undir gegn Fjölni í neðri deild Reykjavíkurmótsins í gærkvöldi. Enda varð sigur raunin. Anna "Smári" með tvö og eitt sérlega glæsilegt úr hjólhesti og Anna "Madonna" með það þriðja í 3:2 sigri. Óla samt lúmskt að leggja upp tvö mörk, ætli einhver hafi tekið eftir því? Við bíðum spennt eftir kommentum "bachelorsins" á leiknum á Þraukarasíðunni.

Halla feministi að standa sig þokkalega að græja leiki í Lalandia 2003. Lítur út fyrir þétt prógramm.

Kíkti aðeins niður í Þrótt í gær að sækja búningana. Endaði á Kvennaráðsfundi, spjalli við Bjögga (styrkhafa), GunnIngu og Mist í 2 tíma. Ekki eins og maður hafi neitt að gera betra við tímann. Nei, vinir og fjölskylda kemur alltaf númer eitt, draslið heima má bíða í einn dag í viðbót. Svona hangs með vinum er ómetanlegt. Vá þetta hljómar eins og sjónvarpsauglýsing.

Hrós dagsins: Halla feministi og major Danmerkurreddari og Bjöggi sem fékk styrk í dag frá borgastjóranum. Gott´etta.

mánudagur, mars 24, 2003

Þetta líf er náttúrulega alltof bissí. Nú er ég búin að vera að vinna í 15 daga streit og það er bara mánudagur, þ.e. ef það telst vinna að vera á þjálfaranámskeiði. Mér finnst það allrosaleg vinna. Prógramm alla helgina, byrjaði meira að segja 8 bæði laugardag og sunnudag. SiggiRaggi snéri sig á ökkla á föstudaginn svo stelpan þurfti að bera græjur og hjálpa til við að sjá um námskeiðið. Hvað gerir maður ekki fyrir boltann??? En það er alveg þess virði. Það er svo yndislega gaman að þjálfa, sérstaklega þegar maður þjálfar svona frábærar stelpur eins og Þraukarana sem allar eru tilbúnar í að leggja sig fram og læra. Ég græddi alveg slatta á námskeiðinu, sérstaklega það að kynnast dr. Mist betur, en hún sat þetta með mér. Hún svaf reyndar allan sunnudaginn svo ég talaði ekki mikið við hana þá. Skrítið!!!

SiggiRaggi snillingur missteig sig hrikalega illa gegn Þór á föstudagskvöldið. KR vann þó 5:2. Þetta þurfti akkúrat að gerast á lokamínútunni (eins og alltaf) og ekki er almennilega vitað enn hversu alvarlegt þetta er. Hann verður nú fljótur að hrista þetta af sér.

Eftir þvílíkt erfiðan laugardag á þjálfaranámskeiði var ég ekki beint í skemmtanastuði. Skrítið hvernig hlutirnir geta breyst. Skellti mér til Hiddu og sat þar í góðu yfirlæti með Hiddu og GunnIngu. Þar var pæjast, spjallað, og sms-að. Þessar líka yndislegu stúlkur eru snillingar að koma manni í gott skap og innan 5 mínútna vorum við allar komnar í tjúttgírinn, en aðeins 2 tímum fyrr höfðum við allar verið eitthvað pirraðar og þreyttar. Svona eiga vinkonur að vera - vega hver aðra upp. Við sátum hjá Hiddu til miðnættis. DaðiSpaði kíkti til okkar og reitti af sér nokkra brandara. Síðan lá leiðin í gettóið, eða Harlem þar sem stelpan ólst reyndar upp - jú jú, Breiðholtið. Þar bauð Fjóla í innflutningspartý af bestu gerð og veit ég ekki betur en að allar Þraukarastúlkur, bachelorinn og stripparinn hafi skemmt sér einstaklega vel. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir GunnIngu til að spila Nínu, gekk það ekki, en það kom ekki að sök þar sem við sungum það bara fyrir hana í staðinn. "Ungu stelpurnar" fóru svo og kíktu á grasið hinum megin við lækinn, þ.e. á Sólon en við sátum og dönsuðum í gettóinu fram til að verða 3. Þá var Mist orðin skrítin í útliti, Fjóla hætt að vera meidd, GunnInga overdósaði á hárblásaranum, Hidda lagði sig pínku, Gulla fór í Pictionary og Kolla fór til Hveragerðis (allavega langleiðina að henni fannst). Þær skelltu sér þá á Sólon en af sinni einskæru ljúfmennsku skutlaði Mist stelpunni heim til sín upp í sveit. Því er ómögulegt að segja hvað gerðist á Sólon þótt allir virðist sammála um að þar hafi verið afar rólegt. Eru þær með samantekið ráð í að leyna stelpunni einhverju???

Ekki var neitt spes gaman að vakna rúmlega sjö á sunnudagsmorguninn vitandi það að námskeið lægi fyrir frá 8-16. En það reddaðist allt saman og varð bara hið skemmtilegasta. AmStyle gerði líka gott gagn í hádeginu, en ég legg ekki í vana minn að fara þangað nema til einstakra hátíðarbrigða.

Var orðin svo rugluð af þreytu eftir námskeiðið að ég fór beint heim í ljúfasta bað ever. Rankaði svo ekki við mér fyrr en hálfsex að Dóra frænka og 2.flokksvalsaragengismeðlimur hringdi í mig og spurði hvar ég eiginlega væri. Ég sagðist náttúrulega vera bara heima. Þá tilkynnti hún mér það að ég hafi lofað að mæta í valsgegnjaklúbb í Kópavoginn. Allir mættir nema stelpan og Birna sem er á Spáni. Mætti nú hálfsjúskuð en það var gaman. FlashBack þegar Svala og Begga voru að spá í hvaða mynd þær ættu að fara á í bíó. Þar með missti ég því miður af Blikar-KR í Meistarakeppni KSÍ. Dóh!!!

Hrós helgarinnar: Hidda og GunnInga og að sjálfsögðu allir hressir Þraukarar sem mættu til Fjólu og svo náttúrulega SiggiRaggi sem stóð sig eins og hetja að kenna á námskeiðinu þrátt fyrir að vera á hækjum.

fimmtudagur, mars 20, 2003

Ok, ég viðurkenni að síðasta færsla var ekkert voðalega áhugaverð fyrir marga. Var samt að vona að fá einhver viðbrögð. Sennilega nennir enginn að lesa hana. En ég er komin í 3 daga helgarfrí, sem er reyndar lítið frí þar sem ég er að fara á þjálfaranámskeið alla helgina. Jei, gaman.

Hrós dagsins: UEFA

Snilldartilþrif í leiðara Mogga í dag. Hvet ykkur til að lesa hann. Hér eru valdir kaflar:

"Þegar ljóst var að yfirgnæfandi vilji íslenzku þjóðarinnar var sá, að stofna lýðveldi á Þingvöllum 17. júní 1944 voru það Bandaríkjamenn, sem greiddu götu þess á alþjóðavettvangi með því að verða fyrstir þjóða til þess að viðurkenna hið unga íslenzka lýðveldi. Því munum við Íslendingar ekki gleyma.

Þegar erlend herskip sáust á ytri höfninni í Reykjavík að morgni 10. maí 1940 varð þjóðin allshugar fegin, þegar í ljós kom, að þau voru brezk. Því má ekki gleyma, að það var raunhæfur möguleiki að Þjóðverjar tækju Ísland á fyrstu mánuðum heimsstyrjaldarinnar síðari.

Þegar Bretar treystu sér ekki lengur til að veita okkur Íslendingum þá vernd, sem við þurftum á að halda á stríðsárunum voru það Bandaríkjamenn, sem komu til sögunnar og veittu okkur nauðsynlega hervernd til stríðsloka.

Þegar fjörutíu ára kalt stríð skall á í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari voru það Bandaríkjamenn, sem tóku að sér með sérstöku samkomulagi við okkur að tryggja öryggi Íslands. Þetta var á þeim árum, þegar hvert ríkið á fætur öðru í Austur-Evrópu féll undir hramm Sovétstjórnarinnar og sprengjuflugvélar og kafbátar frá Sovétríkjunum voru stöðugt á ferðinni í kringum Ísland. Vernd Bandaríkjanna á þessum tíma var raunveruleg. En auðvitað byggðist ofangreindur stuðningur á gagnkvæmum hagsmunum þjóðanna tveggja.

Þrisvar sinnum á árabilinu 1958 til 1976 sendu Bretar herskip inn í íslenzka fiskveiðilögsögu til þess að gera fiskiskipum sínum kleift að veiða fisk í okkar lögsögu. Í öll skiptin voru það Bandaríkjamenn, sem réðu úrslitum um það bak við tjöldin að Bretar gáfust upp og viðurkenndu fyrst 12 mílna lögsögu, síðar 50 mílna lögsögu og loks 200 mílna fiskveiðilögsögu okkar Íslendinga. Við hefðum ekki unnið sigra í þorskastríðunum með þeim hætti, sem við gerðum ef þessi stuðningur Bandaríkjamanna hefði ekki komið til.

Vinátta og samskipti þjóða í milli jafnt sem einstaklinga byggist á gagnkvæmni. Við höfum notið öflugs stuðnings Bandaríkjamanna eins og hér hefur verið lýst á úrslitastundum í sögu íslenzku þjóðarinnar."
- Morgublaðið, leiðari, 20. mars.

Bandaríkjamenn eru kannski ekki svo slæmir eftir allt???

miðvikudagur, mars 19, 2003

Þraukarar2 töpuðu rétt fyrir úrvalsdeildarliði FH, 2:0. Liðið stóð sig massavel.

Allir virðast vera að bíða eftir stríði. Það er samt spurning um hvort það viðri nægilega vel til loftárása í nótt. Býst ekki við því. Allt á hold bara.

Hrós dagsins: Allir leikmenn Þraukara2

þriðjudagur, mars 18, 2003

Mikið um stjórnmálafundi alls konar um þessar mundir. Var tilneydd til að sækja fund sjálfstæðiskvenna í gær. Þar ræddu þær um þann árangur sem náðst hefur undanfarin kjörtímabil. Skrítið að vilja ekki heldur einbeita sér að því hvað þær ætla gera í stað þess að telja upp hvað þær hafi gert. Þær hafa kannski ekki heyrt máltækið: Maður lifir ekki á fornri frægð. Hefði heldur kosið að fara á alvöru fund samfylkingarinnar sem var á sama tíma. IngibjörgSólrún alls óhrædd og skorar á Dabba í kappræður. You go girl.

Allt stefnir í stríð. Var að tala við hana Beggu vinkonu mína sem býr á Manhattan. Hún segir ástandið þar hálfundarlegt um þessar mundir. Allir að bíða. Ég held að stríð sé óumfrýjanlegt úr þessu og bið bara fyrir snöggu stríði þar sem hvað fæst dauðsföll og minnst eyðilegging verður, nema þá á stórhættulegum vopnum. Áfram friður!!!

Ágætis æfing á mánudagskveldið. Menn með keppnisskap. Get ekki beðið eftir að komast til Danmerkur þar sem hópurinn þjappast vonandi endanlega saman. Held að það verði megastuð.

Styttist einnig í konukveldið, þann 4. apríl. Allar hressar konur velkomnar. Það verður haldið í Þróttaraheimilinu. Ég er þegar búin að plata mömmu og tengdó til að mæta og kannski systu og Hildi mágkonu. Það verður mikið um dýrðir.

BirnaBesta að koma heim þann 3. apríl. Held hún sé nokkuð sátt við það. Hún er eins og beljurnar, lætur sjá sig þegar styttist í íslenska sumarið:-)

Skora á ykkur að taka Friendsquizið hér að neðan. Reyndar er það OF augljóst, en samt gaman!!!
Það lítur út fyrir að ég hafi dæmst sem Joey!


Which F.R.I.E.N.D.S Character are you?
brought to you by Quizilla

Hrós dagsins: Þraukarastelpur sem kvörtuðu ekki múkk yfir súisæds sprettunum á æfingu á mánudagskvöld.

sunnudagur, mars 16, 2003

Kíkti á The Pianist um helgina. Nokkuð öflug mynd í anda Schindler´s list. Píanóatriðið full langt fyrir suma - sem sofnuðu. Það má samt ekki misskilja það þannig að félagsskapurinn, né myndin hafi verið léleg. Nei, linsur eru nefnilega þannig gerðar að í bíósal eins og Háskólabíói þorna þær mjög óvænt upp svo nauðsynlegt telst að loka augunum í nokkrar mínútur í senn. Það skal þó tekið fram að það er ekki talið sem svefn. Gunni og SiggiRaggi að standa sig í að velja mynd - loksins. Stelpan og Halla orðnar þokkalega úttaugaðar á öllum þessum hryllingsmyndum undanfarið.

Fórum á Friday´s á laugardagsköld. Tróðum okkur út. Hittum svo Daða algerlega óvænt fyrir utan Smárabíó með "félaga" sínum. Gamanaþí. Kíkti svo í vinnupartý á laugardagskvölið. Mjög gaman. Fórum svo á Litla ljóta og spjölluðum. Fræddist um Kilimanjaro, en einn vinnufélagi minn er nýbúinn að klifra þar upp.

Hrós dagsins: DaðiSpaði fyrir að koma með einfalda, en mjög svo sterka punkta um þjálfunina - hluti sem ég sé ekki en hann pikkar upp. Einnig fyrir að minna mig á það hver ég raunverulega er og að láta ekki aðra hafa alltof mikil áhrif á mig. Þetta þurfa allir að taka til fyrirmyndar.

laugardagur, mars 15, 2003

Mikið um dýrðir að undanförnu. Fór á Bessastaði og hitti forsetann á fimmtudag og talaði svo við Vigdísi Finnbogadóttur fyrrverandi forseta og ljúfmenni. Halla er örugglega í skýjunum þar sem Femínistafélag Íslands var stofnað í gær. Til hamingju með þetta.

Hrós dagsins: Halla fyrir mikla feministabaráttu.

föstudagur, mars 14, 2003

Hef ekki orku í stjórnmálaumræður í dag. Finnst vanta aðeins meiri umræður um þær á Bjöggabloggi. Eina sem strákurinn gerir er að ganga og huxa. Þarf að fara að blogga meira.

Slen á æfingunni áðan. Stelpan ekki alveg sátt við hópinn sinn. En vonandi var þetta ein af þessum æfingum sem eru óvenjulegar og koma ekki aftur. Það er alltént ljóst að við þurfum að vera stöðugt á tánnum til að eiga breik í úrvalsdeild. Vona að þetta verði farið úr mannskapnum fyrir morgundaginn. Eins gott. Ég hef allavega gífurlegan metnað og fer fram á að mínir leikmenn hafi hann líka.

Fór að lyfta í dag. Þurfti að maxa og enginn í salnum. En ég var svo "heppin" að akkúrat þegar ég var að fara að maxa í bekk kom massatröll labbandi inn. Ég bað hann um að "spotta" mig. Hann gerði það með mestu ánægju. Ég skellti fyrst 45 kg á en náði því ekki upp. Þá fór kallinn eitthvað að ræða um tækni í bekkpressu. Ég eyddi því tali mjög hratt og minnkaði niður í 42,5. Það hófst nokkuð auðveldlega með mikilli hvatningu massatröllsins. Skrítið hvað miklu getur munað á svona 2,5 kílóum. Hef samt mest tekið 50 kg í bekk, en það var þegar ég var í mínu allra besta formi í High Point University í USA.

Thelma frænka er ótrúleg. Þrátt fyrir að vera aðeins 11 ára er hún komin með sitt eigið blogg. Kíkið á stelpuna. Og hvað haldið að slóðin sé, jú auðvitað thelmaflotta.blogspot.com.

Hrós dagsins: Thelma Dögg fyrir nýtt blogg.

miðvikudagur, mars 12, 2003

Stelpan fór rólega í gang í gær en hresstist mikið með kvöldinu. Íbúðin tekin í gegn bara sísvona. Það er svona þegar maður byrjar, þá dettur maður oft í stuð.

Ég óska Hjálmdísi minni innilega til hamingju með drenginn sinn en hún eignaðist myndarstrák í morgun, 12. mars.

Birna litla farin í hnénu aftur. Þarf aðra speglun. Greyið litla, það á ekki að henni að ganga í þessum heilsufarsmálum. Heyrði í henni í gær og hún ber sig bara ótrúlega vel stelpan, hristir þetta af sér eins og ekkert sé. Duglegur dvergur.

Begga var að missa tengdapabba sinn úti í N.Y.C. Erfiðir tímar hjá þeim. Man eftir þeim í bænunum mínum.

Gunninga hefur nefnt að það sé hálf asnalegt að ræða pólitík á bloggi "því enginn getur stoppað mann af í vitleysunni né reynt að rökræða við mann." Það er alveg rétt, en samt er nú gaman að bulla í eins manns hljóði. Þá er alltént ekki hægt að saka mann um tveggja manna tal sem enginn veit nánari skil á. Dabbi er ótrúlega snjall maður, það skal ekki af honum tekið. Í Mogga í dag segir hann til dæmis að nóg sé komið af persónulegum árásum og tími til að snúa sér að málefnum í þessari kosningabaráttu. Eins og áður segir er hann einnig snillingur í að snúa málum sér í hag. Þegar hann er sumsé búinn að rakka fólk niður persónulega og búinn að draga alla með sér á það plan (en ég fatta ekki af hverju fólk lætur plata sig niður á það plan) stendur hann upp og segist ekki taka þátt í slíku. Þetta er svona eins og gamla góða leikskólavandamálið: "hann byrjaði, ekki ég," en það er sama. Kallinn er snillingur í þessu. Í DV er svo velt upp spurningunni: "Á að kjósa um forsætisráðherra eða framtíðarsýn?" Þetta þykir mér hinn ágætasti punktur og ætti fólk að velta því duglega fyrir sér áður en það fer inn í kjörklefann í maí. Annars er ég langt frá því að vera alvitur um stjórnmál, enda bara þekkt íþróttaidjót þar til fyrir stuttu að ég fór að vinna á Mogga og neyddist því til að fá áhuga á slíkum málum.

Hrós dagsins: SiggiRaggi fyrir mikinn dugnað í heimilisstörfum í gær. Eldaði, tók saman eftir matinn, græjaði pappíra fyrir skattaskýrslu og þvoði þvott - allt á sama kveldinu. Nokk vel af sér vikið. Einnig Hjálmdís, Begga og Birna sem allar eiga það sameiginlegt að vera yndislegar manneskjur.

þriðjudagur, mars 11, 2003

Frábær æfing í gær. Mjög ánægð með stelpurnar. Góður stígandi á æfingum hjá okkur. Þær að keyra sig í form í bolta, en ekki ógeðishlaupum eins og hjá sumum. Tóku svo létta spretti í lokin og leystu það með prýði án þess að ein einasta kvartaði. Svona vil ég hafa mitt lið. Þetta gerir mig glaða. Loksins komnar inní snerputímabil. Nú verða hopp og sprettir tekin föstum tökum. Létting í prógrammi fyrirsjáanleg og skot og fyrirgjafir í ríkari mæli með minnkandi vindum á Ásvöllum!!!

Nokkuð mikið ýjað að því að stormurinn í íslenskum stjórnmálum að undanförnu komi upphaflega frá Ingibjörgu Sólrúnu. Ég skil það nú ekki. Ímyndið ykkur að þetta hafi verið akkúrat öfugt, að Ingibjörg Sólrún hefði sagst hafa verið boðið mútur, hvernig myndi Dabbi bregðast við? Hann myndi, án efa, nota tækifærið og keyra hana í kaf með kjafti og klóm. Hann myndir snúa þessu þannig að hún ætti ekki séns í næstu kosningum. En, gerir Ingibjörg Sólrún það við Davíð, nei. Hún meira að segja varði hann hálfpartinn í Kastljósi þar sem hún sagði að Davíð myndi nú aldrei taka undir svona og þetta væri örugglega allt á misskilningi byggt. Þið, pólitísk huxandi fólk, spáið í þetta!!! Stelpunni datt þetta í hug, án þess að vera búin að gera upp hug sinn fyrir næstu kosningar.

Þakka Daða fyrir stuðningsyfirlýsinguna. Hann er bara að vona að ég velji hann í landsliðið, verði ég einhvern tímann landsliðsþjálfari - sem ég stefni að sjálfsögðu að.

Hrós dagsins: BirnaBesta því hún þarf svo sannarlega á því að halda stelpan.

mánudagur, mars 10, 2003

Einstaklega bissí helgi að baki. En skemmtileg. Tveir fótboltaleikir, sem voru hvor um sig ágætlega ánægjulegir. Tap gegn Stjörnunni og sigur gegn Sindra. Einnig var leikur hjá stráknum, tap 2:0 gegn Akranesi. Árshátíð KSÍ var svo á laugardagskvöldið og var það hin ágætasta skemmtun.

Hrós dagsins: Ingi frændi fyrir krúttlegt símtal.

föstudagur, mars 07, 2003

Gúmmíkúlur
Yndislegt þykir mér að geta æft í knattspyrnuhöll á slæmum vetrardegi. Hins vegar hef ég orðið vör við það að litlu svörtu gúmmíkúlurnar sem þekja grasið eru nokkuð útsmognar. Í hvert sinn sem maður yfirgefur Egilshöll ber maður lófafylli af gúmmíkúlunum góðu með sér. Þær luma sér gjarnan í skó, töskur og innundir legghlífar. Smátt og smátt má síðan finna gúmmíkúlurnar í bílnum, parketinu, þvottahúsinu já og jafnvel stofunni. Mér var þó næstum allri lokið þegar ég fann nokkrar þeirra upp í rúmi hjá mér um daginn. Þá sagði ég hingað og ekki lengra, dustaði þær niður á gólf þar sem þær mega dúsa fyrir mér.

Mikið var annars að gera í vinnunni í dag, enda nóg um spennandi verkefni. Görungarnir segja að nýliðarnir fái jafnréttis- mennta- og heilbrigðismál. Það sannaðist í dag. Ég fékk þá ein þrjú heilbrigðismál og eitt menntamál. Það var aldeilis spennandi. Jæja, nú ætla ég að slökkva á tölvunni, fara heim og elda fyrir eiginmanninn.

Hrós dagsins: SiggiRaggi fyrir að þola mig í 11 ár (akkúrat í dag).

fimmtudagur, mars 06, 2003

Aldeilis mikið að gera í vinnunni í dag. Ég hellti mér í ofbeldið og fór á fund hjá Stígamótum. Það var mjög athyglisvert þar sem verið var að kynna ársskýrsluna fyrir síðasta ár.

Annars er lífið bara ljúft, orðið bjart úti og því ætti að vera auðveldara að vakna á morgnana. Það er það samt ekki enn. Kannski af því að ég fer of seint að sofa á kvöldin.

Ágætis leikur þar. Reyndar alveg að drepast í hásininni eftir hann. Ég er orðin þokkalega pirruð á þessari hásin. Kaupa nýja.

Hrós dagsins: Hidda því hún er svo sæt.

miðvikudagur, mars 05, 2003

Lagði ekki í lyftingar í gær. Alltof tæp í hásininni. Líka leikur í dag. Blikar. Tökum þær. Lagði mig því aðeins þegar ég kom úr vinnunni það var ljúft. Svo var eldað fahjitas og Hjálmdís gamla vinkona kíkti í heimsókn. Það var geggjað gaman að sjá hana. Hún er glæsileg þar sem hún á að eiga á sunnudag.

Rabbaði svo þónokkuð í símann áður en ég sá stelpurnar í Survævor algjörlega rúla.

Hrós dagsins: Hjálmdís fyrir að kíkja í heimsókn.

þriðjudagur, mars 04, 2003

Hvaða ótrúlega sumarveðurfar er þetta? Þetta er yndislegt. Ekki kvarta ég. Dagurinn í gær er sá fallegasti sem af er þessu ári. Sólin skein skært og norðurljósin í gærkvöldi, oh my gosh!!! Aldrei séð annað eins og svo stjörnurnar sem fylgdu.

Fundarmaraþon í Þróttaraheimilinu í gær. Fór á 3 fundi og eina æfingu. Fín æfing í góða veðrinu, bara gaman.

Fór svo á ostalegustu mynd ársins, Blue Crush... Svakalegt handrit, stórleikarar og frábær leikstjórn gera þetta að ostalegustu mynd ársins. Ekki missa af henni:-)

Hrós dagsins: SiggiRaggi fyrir að vera ekki fúll út í mig fyrir að velja mynd í bíó í gær.

ps. AnnaMargrét klobbaði mig EKKI á æfingu í gær og kallaði um leið "klobbi" það er misskilningur. Ég gerði það við hana...

mánudagur, mars 03, 2003

Helgin flaug. Mjög hratt. Kósíkvöld á heimilinu á föstudagskvöld, vídeó og nammi. Á laugardag var líka smá kósí. Bíltúr á Gróttu, ís, rölt í fjörunni og kellingar fleyttar. Matarboð hjá Arnari og Lizzý um kvöldið þar sem við fengum glæsta nautasteik. Síðan hélt ég ásamt GunnIngu og Hiddu í það sem átti að vera 2 tíma vinna á barnum í Þrótti útaf afmæli Jóns Ólafssonar. Fjörið var mikið svo við komumst ekki heim fyrr en hálfsex. Maður sparkar StebbaHilmars, HelgaBjörns, AgliÓlafs, KK og þeim öllum ekki svo auðveldlega út svo við sættum okkur við þetta. Ég var samt frekar skrítin þegar ég vaknaði 2 tímum síðar til að stjórna Þraukurum gegn HK/Víking. Þær stóðu sig frábærlega. Allt um það á Þraukarasíðunni. Svo var tap fyrir KR síðar um daginn, ekki orð um það meir. Svo notó lunch með GunnIngu í hádeginu. Jammí.

Hrós dagsins: GunnInga fyrir notó lunch í dag.